Klukkutímarnir segja ekki alla söguna og eru til viðmiðunar. Það sem við stefnum að er að ná 54° kjarnhita í þessari myndarlegu steik á löngum tíma. Það gefur því auga leið að kjöthitamælir er ómissandi við eldunina.
Undirbúningur
Í Kjötkompaní er bitinn er bundinn upp svo steikin haldist saman og verði jöfn og falleg. Þú skalt ekki skera á garnið fyrir eldun. Komdu steikinni fyrir í ofnskúffu eða ofnfati. Penslaðu hana ríkulega í bak og fyrir með kryddleginum, settu kjöthitamælinn í hana miðja og renndu henni svo í ofninn sem stilltur er á sirka 70°.
Eldun
Kannski þarftu núna að drífa þig í vinnuna, annars er um að gera að njóta dagsins á fjöllum, halda áfram að klára að smíða seglbátinn í skúrnum eða eiga enn eitt ævintýrið með fjölskyldunni eða vinahópnum. Aðalmálið er að vera í eldhúsinu eftir 9-12 tíma þegar hitinn fer að skríða yfir 50° í steikinni og gestirnir væntanlegir. Meðan sósan mallar á vægum hita klárarðu að elda meðlætið og gengur úr skugga um að nóg sé af Bola í kælinum.
Framreiðsla
Um leið og kjöthitamælirinn sýnir 54° tekurðu steikina úr ofninum. Þegar þú skerð hana í þunnar sneiðar við borðið blasir við dýrðlegt kjöt með dimmrauðum lit, safaríkt og með þungum og sérstökum ilmi. Á þessu stigi er nauðsynlegt að strá vel af flögusalti yfir sneiðarnar. Sósan setur svo punktinn yfir i-ið. Hún er löguð úr nautasoði, Bola, rósmarín og rjóma, passar fullkomlega við kjötið og myndar brú milli þess og svalandi glassins af kældum Bola við hliðina á diskinum.